Site Logo

Mótaraðir

Mótaraðir

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - "Mótaröð þeirra bestu"

Er mótaröð fyrir bestu kylfinga landsins og til að fá þátttökurétt þarf að uppfylla ákveðin forgjafar takmörk en einnig getur staða á stigalista ráðið um hvort leikmenn fái boð til þátttöku á einstökum mótum. Hvert keppnistímabil telur alls 8 mót en stigalisti er uppfærður að loknu hverju móti sem sýnir stöðu leikmanna. Í lok hvers tímabils hljóta efstu kylfingar, í hvorum flokki fyrir sig, titilinn stigameistarar GSÍ. Mótaröðin er samstarfsverkefni Golfsambands Íslands, golfklúbba landsins og traustra samstarfsaðila en mótaröðin hefur vaxið hratt á undanförnum árum, bæði í umgjörð og styrk keppenda. Mótaröðin hefst í september ár hvert með tveimur haustmótum og líkur ári síðar í ágúst með lokamóti. Síðustu fjögur mót hvers tímabils eru nefnd “final four” en til að komast inn í Origo Íslandsmótið í holukeppni (5) þurfa leikmenn að vera í 32 efstu sætum á stigalista karla og 16 efstu sætum á stigalista kvenna til að fá þátttökurétt í mótinu. Haldinn er sérstakur stigalisti yfir stöðu leikmanna í aðdraganda þessa móts ár hvert en stigalistann má sjá á heimasíðu www.golf.is Bæði KPMG mótið (Hvaleyrabikarinn) og Securitas mótið (Grafarholtsbikarinn) takmarka  fjölda þátttakenda. Tekið er mið af stigalistum og síðan hefur mótshaldari ákveðinn fjölda sæta í mótið, samkvæmt reglugerð mótsins. Allir sem hafa keppnisrétt fá sent boð frá viðkomandi mótshaldara sent til sín.Allar reglugerðir má sjá á heimasíðu GSÍ. Íslandsmótið í golfi hefur verið hátindur tímabilsins en þar er leikið um Íslandsmeistaratitilinn í höggleik sem er án efa eftirsóttasti titill sem völ er á í íslensku golfi. Þannig má segja að til að komast inn í síðustu fjögur mótin þarf leikmaður ekki einungis lága forgjöf heldur einnig að vera búinn að tryggja sér gott sæti á stigalistanum með þátttöku í haust- og vormótum fyrir þessi síðustu fjögur mót tímabilsins. Ákveðið hefur verið að auka verðlaunafé stigameistara í hvorum flokki umtalsvert. Stigameistarar hvors flokks árið 2018 fá 500.000 kr. í verðlaun séu þeir atvinnumenn. Standi áhugakylfingur uppi sem sigurvegari verða verðlaun samkvæmt reglum um áhugamennsku réttindi.

 

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN  - Dagskrá 2018
 
mót 2017

02.09.17 GA EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (1) - Bose mótið
16.09.17 GO EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (2) - Honda Classic


mót 2018

18.05.18 GL EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - Egils Gullmótið (3)
08.06.18 GM EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - Símamótið (4)


- final four -

29.06.18 GS EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - Origo bikarinn, Íslandsmót í holukeppni (5)
20.07.18 GK EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - KPMG, Hvaleyrabikarinn (6)
26.07.18 GV EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - Íslandsmótið í höggleik (7)
23.08.18 GR EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - Securitasmótið, GR bikarinn (8) - Lokamót

08.09.18 GKG EIMSKIPSMÓTARÖÐIN Pro/Am - Honda Classic - (Off Venue)


Til mikils er að vinna en verðlaun á mótaröðinni eru glæsileg og umgjörð mótanna er með því besta sem gerist ásamt því að afreksstjóri GSÍ fylgist vel með árangri leikmanna á Eimskipsmótaröðinni og styðst við það í vali sínu á leikmönnum sem sendir eru í verkefni erlendis á vegum GSÍ.
Lokahóf og verðlaunaafhending þar sem stigameistarar verða krýndir er haldið strax eftir að keppni lýkur á lokamótinu.
Golfsamband Íslands vill koma fram þökkum til allra þeirra sem koma að mótahaldi GSÍ. Mótaröð sem þessi er ekki möguleg án góðrar samvinnu golfklúbba, dómara, samstarfsaðila og GSÍ.


ÍSLANDSBANKAMÓTARÖÐIN  - “Þar sem stjörnur verða til”

Mótaröðin er fyrir framtíðar kylfinga 21 ára og yngri sem komnir eru með reynslu af keppnisgolfi í sínum heimaklúbbi á Áskorendamótaröð Íslandsbanka og tilbúnir að taka næstu skref. Mótaröðin inniheldur alls 5 mót á hverju tímabili og haldinn er sérstakur stigalisti yfir stöðu leikmanna á mótaröðinni sem er uppfærður eftir hvert mót. Í lok tímabils er efstu leikmönnum hvers aldursflokks veitt verðlaun fyrir stigameistara titil GSÍ. Mótaröðin er samstarfsverkefni Golfsambands Íslands, Íslandsbanka þeirra golfklúbba sem halda mótin, en mótaröðin hefur vaxið hratt á undanförnum árum bæði í umgjörð og styrk keppenda. Alls verða mótin sex líkt og undanfarin ár í elstu aldursflokknum verða leiknar 54 holur á þremur keppnisdögum að undanskildu Íslandsmótinu í holukeppni en þess er krafist vegna reglna um heimslista áhugamanna. Elstu aldursflokkarnir hefja því keppni einum degi fyrr en aðrir keppendur. Alls eru keppnisflokkarnir fjórir hjá báðum kynjum á mótaröðinni, 19-21 ára, 17-18 ára, 15-16 ára og 14 ára og yngri.

 

ÍSLANDSBANKAMÓTARÖÐ - Dagskrá 2018

25.05.18 GHR Íslandsbankamótaröðin (1)
01.06.18 GR Íslandsbankamótaröðin (2)
22.06.18 GS Íslandsbankamótaröðin (3) - Íslandsmótið í höggleik
20.07.18 GA Íslandsbankamótaröðin (4) - Íslandsmótið í holukeppni
24.08.18 GKG Íslandsbankamótaröðin (5) - Lokamót

Strax í kjölfar lokamóts mótaraðarinnar er haldin uppskeruhátíð þar sem verðlaun eru veitt fyrir stigameistara tímabilsins og aðrar viðurkenningar veittar. Landsliðsþjálfari fylgist vel með leikmönnum sem leika á þessari mótaröð í leit sinni að framtíðar leikmönnum fyrir þau landsliðs verkefni sem tekið er þátt í á hverju ári.

 


ÁSKORENDAMÓTARÖÐ ÍSLANDSBANKA  - “Það er gaman í golfi”

Leikfyrirkomulag mótaraðarinnar er eftir alþjóðlegri fyrirmynd unglinga mótaraðar fyrir ungra kylfinga. Þessi mótaröð er hugsuð sem fyrstu skref og stuðningur við keppnisþátttöku væntanlegra framtíðarkylfinga. Hér á að vera gaman á vellinum og aðaláherslan lögð á að læra leikinn og mismunandi leikform hans. Þjálfarar og foreldrar eru hvattir til þess að taka virkan þátt og gera þessi mót sem skemmtilegust fyrir þátttakendur með leiðbeinandi og jákvæðu hugarfari í kringum umgjörð móta.
Helstu atriði sem lagt verður upp með:
Ræst er út samtímis af öllum teigum á tveimur tímasetningum fyrir og eftir hádegi. Ef fjöldi þátttakenda fer yfir 54 verður ræst út með hefðbundnum hætti.
Kylfuberar eru leyfðir. Sjá almennar reglur um kylfubera.
Höggleiks afbrigði: eftir 9 högg er skylda að taka upp og skrifa 10 högg.
Í yngsta flokknum skal fallreitur vera flatarmegin þegar slegið er yfir vatnstorfæru.
Í yngsta flokknum, ef bolti týnist er lausnin eins og um hliðarvatnstorfæru væri að ræða. Eitt högg í víti þar sem boltinn fór inn í runna eða þ.h. og leikið áfram.

**Mótin eru ekki stigamót og gilda leiknir hringir ekki til forgjafar.**
Mótin eru alls 5 talsins á hverju ári og eru leikin á glæsilegum 9. holu völlum um land allt.

ÁSKORENDAMÓTARÖÐ ÍSLANDSBANKA - Dagskrá 2018

26.05.18 GHG Áskorendamótaröð Íslandsbanka (1)
02.06.18 GR Áskorendamótaröð Íslandsbanka (2)
23.06.18 GVS Áskorendamótaröð Íslandsbanka (3)
21.07.18 GHD Áskorendamótaröð Íslandsbanka (4)
25.08.18 NK Áskorendamótaröð Íslandsbanka (5) - Lokamót

Keppt er í flokkum flokkum beggja kynja 10 ára og yngri, 12 ára og yngri, 14 ára og yngri og 15-18 ára
Allir keppendur mótsins fá viðurkenningarskjal að leik loknum en einnig verða veitt aukaverðlaun fyrir 1.- 3. sæti í öllum aldursflokkum beggja kynja. Verðlaun verða veitt í hverjum aldursflokki fyrir sig eftir að keppni lýkur í viðkomandi flokki/móti og keppendum verður boðið upp á grillaðar pylsur og drykk að leik loknum.

Mótaskrá,stigalista og reglugerðir einstakra móta er að finna á heimasíðu GSÍ

Með kveðju
mótanefnd GSÍ